Íbúum á Norðurlandi vestra heldur áfram að fjölga lítillega

Skv. nýútgefnum tölum Hagstofunnar heldur íbúum á Norðurlandi vestra áfram að fjölga lítillega. Þann 1. janúar 2021 eru íbúar í landshlutanum 7.398. Þann 1. desember 2019 voru þeir 7.327 en þann 1. desember 2018 voru þeir 7.227. Frá 1. desember 2018 hefur íbúum því fjölgað um 171 eða um tæp 2,4%. Á sama tíma er fjölgunin á landinu öllu um 3,8%. Fjölgun á Norðurlandi vestra á þessu tímabili er því lítið eitt undir landsmeðaltali og má því betur ef duga skal. Engu að síður er hér um mjög jákvæða þróun að ræða og brýnt að áfram verði haldið við að skapa aðstæður í landshlutanum svo frekari fjölgun íbúa verði möguleg, m.a. með stuðningi við atvinnulífið, auknum stuðningi við nýsköpun sem og fjölgun opinberra starfa í landshlutanum. Til samanburðar þá voru íbúar á Norðurlandi vestra 7.844 þann 1. janúar 1999 en 7.401 þann 1. janúar 2009. Landshlutinn virðist því sigla í átt að því að ná járnum sínum hvað íbúafjölda varðar frá árunum fyrir hrun, rúmum 12 árum síðar.