Hlaðvarpsþættir um Norðurland vestra

SSNV og FM Trölli hafa undirritað samstarfssamning um framleiðslu á 30 hlaðvarpsþáttum sem jafnframt verða sendir út á útvarpsstöðinni FM Trölli. Um er að ræða nýjung í starfi samtakanna og eru þættirnir hugsaðir til kynningar á íbúum Norðurlands vestra og þeim fjölmörgu áhugaverðu verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Þættirnir verða á formi viðtalsþátta. FM Trölli tekur að sér eftirvinnslu og birtingu þáttanna bæði á útvarpsstöð sinni og á hlaðvarpsveitum en starfsmenn SSNV sjá um að finna viðmælendur og taka viðtölin sjálf.  Gert er ráð fyrir að fyrsta viðtalið fari í loftið í lok júní og þau verði svo birt vikulega. Tekið er á móti ábendingum um áhugaverða viðmælendur á netfanginu ssnv@ssnv.is. Verkefnið er liður í kynningarátaki samtakanna.

Vinsældir hlaðvarps (e. Podcast) fara sífellt vaxandi og má nú nálgast heilmikið áhugavert efni á íslensku sem hægt er að hlusta á hvar sem er og hvenær sem er.  Líkt og með sjónvarpið hlusta sífellt færri á linulega dagskrá og vilja þess í stað geta valið sér efni til að hlusta á þegar þeim hentar. Margir nýta sér hlaðvarpsveitur til að hlusta á áhugavert efni t.d. á göngutúrum, í bílnum, við húsverkin eða sveitastörfin. Með hlaðvarpsveitunum er hver og einn orðinn sinn eigin dagskrárstjóri.

FM Trölli er útvarpsstöð og vefmiðill sem sendur er út frá Siglufirði. Einnig eru sendir út þættir frá Hvammstanga og í bígerð er að hefja útsendingar frá Sauðárkróki.

Á myndinni sjást Gunnar Smári Helgason eigandi Trölla og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV undirrita samstarfssamning um verkefnið.