Fundargerð stjórnar 09.08.2016

  Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi

 

Fundargerð  8. fundar stjórnar SSNV  9. ágúst 2016.

 

Þriðjudaginn 9. ágúst kom stjórn SSNV saman til fundar á Blönduósi og hófst fundurinn kl. 09:30. 

Mætt til fundar: Adolf H. Berndsen, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, Valgarður Hilmarsson, Sigríður Svavarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Björn Líndal Traustason framkvæmdstjóri sem ritaði fundargerð. Adolf H. Berndsen formaður setti fundinn og stjórnaði honum.  

 

Dagskrá: 

  1. Fundargerð 7 stjórnarfundar SSNV dags 15. júní 2016.
  2. Svæðisskipulag.
  3. Ársreikningur SSNV 2015.
  4. 24. ársþing SSNV.
  5. Verkbókhald.
  6. Rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2016.
  7. Fjárhagsáætlun ársins 2017.
  8. Menningarstefna.
  9. Fundargerðir.
  10. Umsagnarbeiðnir frá Alþingi.
  11. Umsagnarbeiðni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
  12. Skýrsla framkvæmdastjóra.  
  13. Önnur mál. 

 

Afgreiðsla

 

1.    Fundargerð 7. stjórnarfundar SSNV dags. 15. júní 2016

Fundargerðin samþykkt.

 

2.    Svæðisskipulag

Sólveig Olga Sigurðardóttir starfsmaður SSNV mætti til fundarins og upplýsti stjórn um gerð og gangsemi svæðisskipulags.

 

3.    Ársreikningur SSNV 2015

Stjórn staðfestir ársreikning SSNV vegna ársins 2015 með undirskrift sinni.  

 

4.    24. ársþing SSNV

a)      Dagsetning þingsins.

Stjórn samþykkir að ársþingið verði í Skagafirði þann 21. október.

 

b)      Kosning í kjörnefnd SSNV, kjörnir voru:

Bjarki Tryggvason, Sveitarfélaginu Skagafirði, formaður

Margeir Friðriksson, Sveitarfélaginu Skagafirði

Halldór G. Ólafsson, Sveitarfélaginu Skagaströnd

Jóhanna Magnúsdóttir, Húnavatnshreppi

Elín Jóna Rósinberg, Húnaþingi vestra

 

c)      Tillaga stjórnar vegna samþykktar 23. ársþings sbr. c lið tillögu Laganefndar SSNV sem hljóðar svo:

„ c) 23. ársþing SSNV, haldið á Blönduósi 16. október 2015, felur stjórn sambandsins að undirbúa stofnun fulltrúaráðs sem skipað verði fulltrúum frá öllum sveitarfélögum sem aðild eiga að SSNV eða leita annarra sambærilegra lausna sem opni betur fyrir aðkomu sveitarstjórna að SSNV.“

Ársþing samþykkti að vísa tillögunni til umfjöllunar í stjórn SSNV. 

Stjórn SSNV samþykkir að  leggja til að í stað þess að ofangreind tillaga verði samþykkt verði samþykktum SSNV breytt á þann veg að haldin verði tvö þing, Ársþing að vori þar sem afgreidd skulu þau mál sem fram til þessa hafa verið afgreidd á Ársþingi í samræmi við samþykktir og þingsköp SSNV, og hinsvegar Haustþing sem væri málþing um sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna en þar væri einnig afgreidd fjárhagsáætlun næsta árs og kosið til stjórnar samtakanna það ár sem sveitarstjórnarkosningar fara fram. 

 

5.    Verkbókhald

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar upplýsingar úr verkbókhaldi.

 

6.    Rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2016

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar uppgjör vegna fyrstu 6 mánaða ársins 2016. Helstu frávik frá áætlun eru hækkanir á launaliðum sem koma fyrst og fremst til vegna kjarasamninga.

 

7.    Fjárhagsáætlun ársins 2017

Framkvæmdastjóri lagði fram drög að fjárhagsáætlun ársins 2017. Samþykkt að leggja drögin fyrir ársþing. 

 

8.    Menningarstefna

Stefna  sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um sameiginlegt starf að menningarmálum lögð fram til kynningar en starfshópur hefur unnið að málinu. Sameiginnleg stefna í málaflokknum er forsenda fyrir samstarfi sveitarfélaganna á þessu svið. Samþykkt að vísa málinu til Ársþings SSNV.

 

9.    Fundargerðir

Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál nr. 25 dags. 31.05.2016

Fundargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál nr. 26 dags. 21.06.2016

Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 840 dags. 02.06.2016

Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 841 dags. 24.06.2016

Fundargerð stjórnar SSA nr. 9 dags 23. júni 2016

Fundargerð stjórnar SSS nr. 704 dags 15. júní 2016

Fundargerð stjórnar SSH nr. 430 dags 20. júní 2016         

 Fundargerð stjórnar SSH nr. 431 dags 1. júlí 2016

 Fundargerð stjórnar SSV nr. 124 dags. 18. maí 2016

Fundargerð stjórnar FV dags 14. júlí 2016

 

10.    Umsagnarbeiðnir frá Alþingi

a)      Atvinnuveganefnd Alþingis óskar umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum.

Stjórn samþykkir eftirfarandi umsögn um frumvarpið:

 

Alþingi -  nefndasvið

b.t. fjárlaganefndar

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

 

Norðurlandi vestra 22. júní 2016.

 

Efni:   Umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) um þingskjal nr. 1108, mál nr. 680, búvörulög og fl.

 

Norðurland vestra er eitt öflugasta landbúnaðarsvæði landsins og því skipta starfsskilyrði greinarinnar íbúa Norðurlands vestra gríðarlega miklu máli. 

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) fagnar því að samningur ríkisins og bænda taki til 10 ára og að hin lagalegu starfsskilyrði þeirra greina sem samningurinn tekur til liggi fyrir til svo langs tíma. Landbúnaður er langstærsta og mikilvægasta atvinnugreinin á Norðurlandi vestra.  Íbúum landshlutans hefur fækkað um rétt 1200 manns á síðustu 20 árum og er því öll óvissa um skilyrði greinarinnar til þess fallin að grafa enn frekar undan byggð í landshlutanum.

Markmið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna samninganna voru að:

 

  • Gerður verði langtímasóknarsamningur til að minnsta kosti tíu ára um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við umhverfið.
  • Dregið verði úr vægi kvótakerfis í mjólk og það lagt af í áföngum.
  • Dregið verði enn frekar úr vægi núverandi greiðslumarks sauðfjár.
  • Þak verði sett á stuðning til einstakra framleiðenda til að tryggja fjölskylduvænan landbúnað og byggðasjónarmið.
  • Hugað verði að fjölbreyttara fyrirkomulagi á stuðningi.
  • Gerðir verði gagnkvæmir samningar um aukin tollfrjáls viðskipti með landbúnaðarafurðir.
  • Aukinn verði stuðningur við lífræna framleiðslu, gæðastýringarkerfi þróað og umhverfisgreiðslur teknar til skoðunar.
  • Átak verði gert til:
    • að bæta ásýnd sveita og auka nýframkvæmdir,
    • að efla menntun og rannsóknir í landbúnaði.
  • Geitfjárbændur verði hluti af búvörusamningum.
  • Skógarbændur verði hluti af samningi.
  • Matvælalandið Ísland – átak verði gert til markaðssetningar á íslenskum matvælum.

 

Stjórn SSNV styður markmið samninganna hvað það varðar að um sóknarsamninga verði að ræða og að ætlunin sé að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og að landbúnaðurinn starfi í sátt við umhverfi en leggur áherslu á að byggðasjónarmið hafi verulegt vægi við framkvæmd samninganna. 

Um er að ræða 4 samninga. Samning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, nautgriparæktar, sauðfjárræktar og almenn starfsskilyrði lanbúnaðarins. Stjórn SSNV telur mikilvægt að fylgst verði vel með afleiðingum þeirra breytinga sem boðaðar eru í samningunum m.t.t. byggðaþróunar. Er þar m.a. átt við það að greiðslur verði auknar vegna gæðastýringar á kostnað greiðslumarks í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu.

Stjórn SSNV fagnar áformum um aukinn fjárfestingarstuðning í nautgripa- og sauðfjárrækt og átaksverkefni til að auka virði sauðfjárafurða og einnig fagnar stjórn SSNV framlögum til ullarnýtingar og svæðisbundins stuðnings að því gefnu að horft verði til svæða sem falla vel að landbúnaðarframleiðslu og hafa búið við viðvarandi fólksfækkun. 

Í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins eru lagðar til nokkrar áherslubreytingar. Lagt er til að aukin áhersla verði á jarðræktarstyrki m.a. vegna lands sem nýtt er til fóðuröflunar, nýliðun í greininni og stuðning við aðlögun að lífrænni framleiðslu og framlög vegna skógarafurða. Stjórn SSNV fagnar auknum stuðningi við ofangreind atriði en hvetur jafnfram til þess að byggðasjónarmið verði látin hafa áhrif á stuðning samkvæmt rammasamningnum. 

Samkvæmt ofangreindum samningum er gert ráð fyrir að þeir verði endurskoðaðir á árunum 2019 og 2023. Að mati stjórar SSNV er afar mikilvægt að vandlega verði fylgst með því að markmið samninganna náist, sérstaklega þau byggðarlegu sjónarmið sem liggja til grundvallar s.s. í samningnum um sauðfjárrækt. 

Á Norðurlandi vestra eru sem betur fer starfandi öflugar afurðastöðvar sem taka við og fullvinna landbúnaðarafurðir. Afurðastöðvar þessar eru stórir vinnuveitendur á Norðurlandi vestra og er því starfssemi þeirra afar mikilvæg fyrir landshlutann í heild.  Stjórn SSNV leggur áherslu á að ekki verði þrengt að starfssemi afurðastöðva á Norðurlandi vestra með óþarflega þröngri túlkun á EES samningnum. 

Stjórn SSNV lýsir yfir ánægju með meginmarkmið frumvarps þessa en leggur jafnframt áherslu á að fylgst verði vel með afleiðingum þeirra breytinga sem þar eru lagðar til á byggðaþróun, sérstaklega á Norðurlandi vestra þar sem áratugum saman hefur verið mikil fólksfækkun. 

 

b)      Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, 764. mál.

Samþykkt að veita ekki umsögn um ofangreint mál

 

c)      Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka), 58. mál.

Samþykkt að veita ekki umsögn um ofangreint mál

 

d)     Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016-2019, 765. mál.

Samþykkt að veita ekki umsögn um ofangreint mál

 

11.     Umsagnarbeiðni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um frumvarp um námslán og námsstyrki.

Á fundi stjórnar SSNV þann 15. júní  2016 var framkvæmdastjóra falið að skoða hvernig frumvarpið horfði við jafnrétti til náms eftir búsetu.

Stjórn samþykkir eftirfarandi umsögn um málið:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

 

Norðurlandi vestra 30. júní 2016.

 

Efni:   Umsögn stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) um þingskjal nr. 1373, mál nr. 794, frumvarp til laga um námslán og námsstyrki.

 

Í 1. gr. frumvarpsins segir „Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags.“

Í núgildandi lögum er 1. mgr. 1. gr. efnislega svipuð en hún hljóðar svo: „Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags.“

Í eldri lögum námslán og námsstyrki segir um hlutverk Lín: „Meginhlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að veita íslenskum námsmönnum fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms við stofnanir er gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.“

Af ofangreindu má ljóst vera að ætlunin hefur verið með núgildandi lögum og sé með hinu nýja frumvarpi að námsmenn öðlist „tækifæri til náms án tillits til efnahags“

 

Hvergi í þessu frumvarpi né í lögskýringargögnum er að finna skilgreiningu á hvað felist í „tækifæri til náms án tillits til efnahags.“ Virðist helst að átt sé við að námsmenn sem eins er ástatt fyrir eiga rétt á samskonar aðstoð s.s. að allir námsmenn í foreldrahúsum geti fengið samskonar aðstoð eða allir námsmenn í leiguhúsnæði geti fengið samskonar aðstoð. Það sem vantar uppá þessa skilgreiningu er sú staðreynd að hluti námsmanna á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri getur mögulega komist í gegnum nám án þess að taka námslán t.a.m. þeir sem búa í foreldrahúsum á námstíma. Það gengur hinsvegar aldrei upp hjá námsmönnum utan þessara svæða þar sem möguleikinn til að komast skuldlaus frá námi er háður efnahag, ekki endilega efnahag námsmannsins heldur foreldra hans. Í því felst augljós mismunun á því hverjir hafi tækifæri til náms án tillits til efnahags. 

Í þessari mismunun felst það að námsmenn af landsbyggðinni hljóta að skulda hærri upphæðir við námslok en námsmenn af höfuðborgarsvæðinu og mögulega námsmenn frá Akureyri. Afar líklegt verður að telja að þessi staðreynd hafi töluvert að segja þegar ungt fólk velur sér stað til búsetu, með framtíðarhagsmuni sína og barna sinna að leiðarsjósi. Ólíklegt verður að teljast að foreldrar veldu að búa á einhverjum stað ef þeim væri ljóst að með því væru þeir að skerða möguleika barna sinna til náms í framtíðinni.  Má í þessu sambandi nefna að íbúum á Norðurlandi vestra á aldrinum 0 - 50 ára hefur fækkað um tæplega 1.700 manns á síðastliðnum 20 árum – á sama tíma og námsmönnum hefur fjölgað verulega. Ekki er ólíklegt að þetta misrétti til náms óháð efnahag skýri hluta þessarar fólksfækkunar. 

Ljóst er að námslánakerfið eins og það hefur verið rekið frá því að afborganir námslána voru tengdar tekjum greiðenda að hluti námslána hefur í raun verið styrkur. Sá styrkur hefur fyrst og fremst nýst þeim námsmönnum sem af einhverjum ástæðum hafa fengið hæstu lánin. Þar geta ýmsar ástæður komið til. s.s. há skólagjöld í námi erlendis. Það er því ljóst að sá hluti námslána sem í raun hefur verið styrkur hefur gefið námsmönnum tækifæri á að fara í langt og dýrt nám án þess að það nám hafi skilað viðkomandi námsmanni háum tekjum þegar út á vinnumarkaðinn var komið. Styrkurinn styður því varla að nema afar takmörkuðu leyti grunntilgang núgildandi laga og frumvarpsins sem hér liggur fyrir um að tryggja þeim sem falla undir lögin hafi tækifæri til náms án tillits til efnahags. 

Með frumvarpi því sem lagt hefur verið fram er stigið það skref að afnema tekjutengingu á endurgreiðslu námslána og jafnfram er boðað að allir námsmenn sem á annað borð falla undir þá skilgreiningu að þeir eigi rétt á námsaðstoð skuli fá styrk að upphæð 65 þúsund krónur á mánuði í allt að 45 mánuði eða 2.925.000 kr. Ekki er í frumvarpinu gerður greinarmunur á því hvort námsmenn þurfi á þessum styrk að halda eða ekki. Því er haldið fram að verið sé að færa hið íslenska námslánakerfi nær því sem þekkist á Norðurlöndunum.

 

Í Noregi stendur nemendum í háskóla til boða að fá námslán. Að námi loknu geta þeir sótt um að allt að 40% lánsins verði fellt niður og þannig breytt í styrk. Svo að það megi verða eru skilyrði. Eitt að þeim skilyrðum er að námsmaður búi ekki í foreldrahúsum. Hugsunin á bak við það hlýtur að vera sú að þeir námsmenn sem ekki búa í foreldrahúsum séu að jafnaði með hærri framfærslukostnað en þeir námsmenn sem búa í foreldrahúsum. Með því sé verið að auka jafnræði fólks almennt til náms.

Í Danmörku eru styrkir misháir eftir aðstæðum námsmanns m.a. eftir því hvort námsmaður búi í foreldrahúsum eða ekki. Sömu sögu er að segja frá Finnlandi en þar geta tekjur foreldra og fleiri þættir haft áhrif á styrkfjárhæðir. Í Svíþjóð fara styrkir sömuleiðis að hluta til eftir aðstæðum námsmanna.

Það er m.ö.o. ekki í anda norrænu fyrirmyndarinnar að námsmenn fái allir sama styrkinn hvort sem þeir hafi þörf fyrir hann eða ekki. 

Við þá löngu tímabæru endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna hefði verið upplagt að horfa betur til þess hvert markmið núgildandi laga er svo og markmið nýrra laga sem frumvarpið boðar, þ.e. markmiðsins að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í markmiðinu eins og það er orðað hlýtur að felst að ekki eigi allir rétt á sama stuðningi heldur skuli litið til félagslegrar stöðu námsmanna og þeir styrktir í samræmi við félagslega stöðu sína. Einnig hlýtur að felast í markmiðinu að námsmenn komi ekki mis skuldugir úr námi eftir því hver félagsleg staða þeirra var þegar þeir hófu nám, t.a.m. búseta og möguleikinn að stunda nám í heimabyggð. 

Nú búa nemendur af Norðurlandi vestra nánast undantekningarlaust við þær aðstæður að þurfa að flytjast búferlum vilji þeir stunda háskólanám. Það er að vísu hægt að taka allt nám frá Háskólanum á Bifröst í fjarnámi, fáeinar greinar í Háskólann á Akureyri og enn færri við Háskóla Íslands. Námsmenn geta auðvitað skráð sig í erlenda háskóla og stundað fjarnám frá heimili sínu. Í því felst hinsvegar ekki það jafnrétti sem ætlast verður til að sé við lýði á Íslandi. 

Það er með öllu óskiljanlegt að Háskóla Íslands sé ekki gert að efla fjarnám og að sem víðast á landinu séu fjarnámsmiðstöðvar á vegum HÍ. Má í því sambandi nefna að í hálöndum Skotlands er háskóli sem rekur 37 fjarnámsmiðstöðvar víðsvegar um hálöndin. Sá skóli er með svipaðan nemendafjölda og HÍ og samfélagið í hálöndunum er álíka fjölmennt og Ísland. Þar virðist þetta ekki vera vandamál. 

A þeirri ástæðu sem fyrr er rakin varðandi stöðu námsmanna af Norðurlandi vestra getur stjórn SSNV ekki samþykkt að styrkir til námsmanna taki ekki mið af félagslegri stöðu þeirra s.s. búsetu og möguleikum námsmanna til að stunda nám í sinni heimabyggð og þar með möguleikanum að komast skuldlaus frá námi. 

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að alls stunda um 26.600 manns nám sem er lánshæft, en þar af eru einungis um 10.700 námsmenn sem þiggja námslán. Ekki kemur fram í greinargerðinni hversu margir af þeim 15.900 námsmönnum sem ekki þiggja námslán búi í foreldrahúsum og þurfi því síður á opinberum stuðningi að halda. Í greinargerðinni er gert ráð fyrir að heildarupphæð styrkja til þeirra sem ekki þiggja námslán í dag verði á bilinu 2,8 – 5 milljarðar árlega. Líklegt verður að telja að verulegur hluti þeirra sem samkvæmt frumvarpinu fengju styrk þurfi ekki opinberan stuðning af þessu tagi vegna félagslegra aðstæðna s.s. þeir sem búa í foreldrahúsum og hafa ekki börn á framfæri.  

Af ofangreindum ástæðum leggur stjórn SSNV til að þeir fjármunir sem ætlunin er að greiða til námsmanna sem hafa ekki þörf fyrir opinberan stuðning verði frekar nýttir til að styðja þá námsmenn sem á því þurfa að halda s.s. námsmenn sem ekki eiga þess kost að stunda það nám sem hugur þeirra stendur til í heimabyggð en jafnframt að hluti þeirra fjármuna sem virðast vera tiltækir til ráðstöfunar til fólks sem þarf ekki á þeim að halda verði nýttir til að stórefla það námsframboð sem HÍ og aðrir ríkisháskólar bjóða uppá í fjarnámi svo að nemendur allstaðar að af landinu sitji raunverulega við sama borð og þeir sem búa næst þessum háskólum og styðji þar með markmið frumvarpsins um að allir skuli hafa tækifæri til náms án tillits til efnahags.

 

12.    Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri fór yfir verkefni síðustu vikna og það sem framundan er.

 

13.    Önnur mál

1)      Ráðningarsamningur framkvæmdastjóra.

Samkvæmt ráðningarsamningi skal endurskoðun launaliðar fara fram í ágúst 2016. Formanni falið að endurskoða launalið ráðningarsamnings og ganga frá samningi við framkvæmdastjóra.

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið kl. 11:50.

 

Adolf H. Berndsen (sign.)

Unnur Valborg Hilmarsdóttir (sign.)

Valgarður Hilmarsson (sign.)

Sigríður Svavarsdóttir (sign.)

Stefán Vagn Stefánsson (sign.)

 

Björn Líndal Traustason (sign.)