Fundargerð 48. fundar stjórnar SSNV, 24. september 2019

Hér má nálgast fundargerðina á pdf formi.

 

Fundargerð 48. fundar stjórnar SSNV, 24. september 2019.

 

 

Þriðjudaginn 24. september 2019 kom stjórn SSNV til fundar á Hvammstanga og hófst fundurinn kl. 9:30.

 

Mætt voru: Þorleifur Karl Eggertsson, Ragnhildur Haraldsdóttir, Valdimar O. Hermannsson, Gunnsteinn Björnsson, varamaður, Álfhildur Leifsdóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð. Þorleifur Karl Eggertsson formaður setti fundinn og stjórnaði honum.

 

Dagskrá:

 1. Skipting grunnframlaga ríkisins til sóknaráætlana landshluta.
 2. Tilnefning fulltrúa í fagráð menningar.
 3. Bréf frá Halldóri G. Ólafssyni.
 4. Verklags- og úthlutunarreglur ásamt matsblaði Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra.
 5. Umsögn starfshóps um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi um drög að stefnu ríkisins um meðhöndlun úrgangs.
 6. Samningur um stuðning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra.
 7. Haustþing 2019.
 8. Fundargerðir.
 9. Umsagnarbeiðnir.
 10. Skýrsla framkvæmdastjóra.
 11. Önnur mál.

 

 

Afgreiðslur:

1. Skipting grunnframlaga ríkisins til sóknaráætlana landshluta.

Lögð fram til kynningar skipting grunnframlaga ríkisins til sóknaráætlana landshluta frá árinu 2020 þegar nýr samningur um sóknaráætlanir tekur gildi. Hefur skiptingin verið samþykkt af ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála. Framlag til Norðurlands vestra hækkar um rúmlega 14 milljónir. Skv. greinargerð mun skiptingin verða tekin til endurskoðunar fyrir árið 2022 og aftur fyrir árið 2024.

 

2. Tilnefning fulltrúa í fagráð menningar.

Stjórn tilnefnir Ragnheiði Halldórsdóttur í fagráð menningar Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra.

 

3. Bréf frá Halldóri G. Ólafssyni. 

Lagt fram bréf frá Halldóri G. Ólafssyni framkvæmdastjóra Biopol á Skagaströnd. Í bréfinu óskar Halldór eftir því að heimilt verði að sækja um styrki til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra á ensku. Stjórn þakkar Halldóri erindið.

 

4. Verklags- og úthlutunarreglur ásamt matsblaði Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra.

 

Fyrir fundinum liggja drög að uppfærðum verklags- og úthlutunarreglum Uppbyggingarsjóðs Norðurlands. Að mestu er um hefðbundnar uppfærslur reglna að ræða. Stjórn ákveður í samræmi við erindi úr lið 3, og áður framkomnar athugasemdir þar um, að umsóknir á ensku verði heimilaðar enda fylgi þeim stutt greinargerð á íslensku um efni umsóknarinnar. Jafnframt fellir stjórn út ákvæði um hámarksupphæð styrks. Að öðru leyti eru reglurnar samþykktar.

 

5. Umsögn starfshóps um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi um drög að stefnu ríkisins um meðhöndlun úrgangs.

Umsagnarbeiðni var vísaði til starfshópsins á 46. fundi stjórnar þann 6. ágúst 2019. Starfshópurinn tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. ágúst 2019, um lokadrög að stefnu um meðhöndlun úrgangs og gerir að sinni. Í umsögn Sambandsins eru dregin fram lykilatriði sem starfshópurinn vill leggja áherslu á: 

 1. Mikið skortir upp á samráð við gerð stefnunnar.  
 2. Sveitarfélögin þurfa að hafa áfram svigrúm til að haga útfærslu á hirðu og annarri meðhöndlun úrgangs með tilliti til aðstæðna á hverjum stað. 
 3. Nauðsynlegt er að vönduð ábata- og kostnaðargreining fylgi stefnunni og öllum aðgerðum sem henni fylgja. 
 4. Verulega vantar upp á umfjöllun um innviði úrgangsmála í stefnunni. 
 5. Nauðsynlegt er að í stefnunni sé fjallað um mikilvægi öruggrar og lögmætrar förgunar úrgangs. 
 6. Í drögin vantar umfjöllun um þær úrbætur sem gera þarf á stjórnsýslu úrgangsmála til að tryggja farsæla innleiðingu stefnunnar. 
 7. Setja þarf fram framtíðarsýn hvað varðar framleiðendaábyrgð. 

Starfshópurinn hefur þegar sent umsögnina inn. Stjórn þakkar starfshópum umsögnina og gerir hana að sinni.

 

6. Samningur um stuðning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra.

Stjórn staðfestir samning um stuðning atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra sem samþykktur hafði verið með tölvupósti. Með samningnum er gert ráð fyrir að eftirstöðvar samnings frá 2016, sem hafði stoð í þingsályktunartillögu um iðnaðaruppbyggingingu í Austur Húnavatnssýslu frá árinu 2013 verði nýttar til ráðningar starfsmanns sem fær starfsheitið verkefnisstjóri iðnaðar. Samningurinn frá 2016 hefur verið víkkaður út og nær nú yfir Norðurland vestra allt. Um tveggja ára verkefni er að ræða sem er fjármagnað af fyrrgreindum samningi að hluta og verði áhersluverkefni að hluta. Framkvæmdastjóra er falið að hefja undirbúning verkefnisins.

 

 7. Haustþing.

Farið yfir undirbúning haustþings og gögn sem send verða út til þingfulltrúa svo sem starfsáætlun SSNV, ályktanir þingsins, fjárhagsáætlun o.fl.

 

8. Fundargerðir.

Lagðar fram til kynningar.

Starfshópur um framtíðarskipan úrgangsmála, 4. september 2019. 

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, 30. ágúst 2019. 

Stjórn Eyþings, 27. ágúst 2019. 

Stjórn SSV, 28. ágúst 2019. 

Stjórn SSH, 2. september 2019. 

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra, 18. september 2019. 

 

9. Umsagnarbeiðnir og mál í samráðsgátt stjórnvalda.

 

Frumvarp til laga um fjárlög 2020, 1. mál.  Umsagnarfrestur til 4. október. 

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og afmörkun eignar-landa, þjóðlendna og afrétta. Umsagnarfrestur til 26. september. 

 

Framkvæmdastjóra falið að greina fjárlög með tilliti til áhrifa þeirra á Norðurlandi vestra og vinna umsögn um þau út frá þeirri greiningu. ­

 

10. Skýrsla framkvæmdastjóra. 

Flutt munnlega á fundinum.

 

11. Önnur mál.

   a. Smávirkjanasjóður Norðurlands vestra.

 Stjórn samþykkir að úthlutun úr öðru skrefi Smávirkjanasjóðs Norðurlands vestra verði auglýst með umsóknarfrest til 30. október 2019.

 

 

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið kl. 10:30.

 

Þorleifur Karl Eggertsson

 

Ragnhildur Haraldsdóttir

 

Valdimar O. Hermannsson

 

Gunnsteinn Björnsson

 

Álfhildur Leifsdóttir

 

Unnur Valborg Hilmarsdóttir