Fólkið á Norðurlandi vestra - Hlaðvarpsþættir

SSNV hefur hafið framleiðslu á 30 hlaðvarpsþáttum undir heitinu Fólkið á Norðurlandi vestra. Hlaðvarp er í raun og veru útvarp sem ekki er sent út í línulegri dagskrá heldur má hlusta á hvenær sem er í hvaða snjalltæki sem er. Um er að ræða nýjung í starfi samtakanna og eru þættirnir hugsaðir til kynningar á íbúum Norðurlands vestra og þeim fjölmörgu áhugaverðu verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Þættirnir verða á formi viðtalsþátta. FM Trölli tekur að sér eftirvinnslu og birtingu þáttanna bæði á útvarpsstöð sinni og á hlaðvarpsveitum en starfsmenn SSNV sjá um að finna viðmælendur og taka viðtölin sjálf. Tekið er á móti ábendingum um áhugaverða viðmælendur á netfanginu ssnv@ssnv.is. Verkefnið er liður í kynningarátaki samtakanna.

Nú þegar er búið að taka fyrstu viðtölin og munu þau birtast á heimasíðu SSNV (www.ssnv.is) og á facebook síðu samtakanna á miðvikudögum. Einnig verða þættirnir leiknir á útvarpsstöðinni Trölli fm. Fyrsti þátturinn verður aðgengilegur 10. júlí og er viðtal við Sigurð Hansen sem ásamt sinni fjölskyldu hefur af mikilli ástríðu og stórhug byggt upp sögusetur á Kringlumýri í Skagafirði þar sem sagan drýpur af hverju strái. Næstu viðtöl verða ekki síður áhugaverð og hvetjum við fólk til að fylgjast með. 

Markmiðið með þessum viðtölum er tvíþætt. Í fyrsta lagi að miðla því út fyrir landshlutann hvað hér eru magnaðir einstaklingar að gera frábæra hluti. Í öðru lagi, og ekki síður mikilvægt markmið, er að auka stolt okkar íbúa Norðurlands vestra af landshlutanum okkar. Sú er þetta ritar hefur í það minnsta fyllst enn meira stolti en áður af landshlutanum eftir að hafa tekið fyrstu viðtölin. Við erum svo sannarlega rík af öflugu og drífandi fólki sem afar auðvelt er að vera stoltur af. 

Hlaðvarpsþættina má nálgast hér.