Sumarstörf fyrir námsmenn hjá SSNV

(c) Markaðsstofa Norðurlands
(c) Markaðsstofa Norðurlands

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) auglýsa tvö sumarstörf fyrir námsmenn. Eru störfin studd úr átaksverkefni ríkisstjórnarinnar til fjölgunar sumarstarfa.

Skilyrði er að námsmennirnir séu á milli anna, þ.e. hafi stundað nám á vormisseri, séu skráðir í nám á haustmisseri og geti framvísað staðfestingum þar um. Ráðningartími er 2 mánuðir á tímabilinu 1. júní – 31. ágúst 2020. Námsmenn þurfa að vera að lágmarki 20 ára á árinu og eiga lögheimili á Norðurlandi vestra.

Verkefni sumarstarfsmanna munu snúa að tveimur átaksverkefnum í tengslum við gönguleiðir og merkingar áhugaverðra staða á Norðurlandi vestra. M.a. hnitsetning og stikun göngu-, hlaupa og hjólaleiða, gerð leiðarlýsinga og skráning grunnupplýsinga um viðkomandi leiðir. Söfnun og skráning staða sem vantar á skilti/merkingar í landshlutanum o.s.frv.

Námsmennirnir munu vinna saman að framangreindum verkefnum. Megin starfsstöð þeirra getur verið á einhverri af þremur skrifstofum samtakanna á Sauðárkróki, Skagaströnd eða Hvammstanga. Möguleiki er á að koma upp starfsaðstöðu í öðrum þéttbýliskjörnum á starfssvæði SSNV. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi bílpróf.

Nánari upplýsingar veitir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, unnur@ssnv.is

Tekið er á móti umsóknum til og með 28. maí í gegnum umsóknarform hér.