Vel heppnaðir Hæfnihringir á netinu

Á dögunum lauk Hæfnihringjum, samstarfsverkefni nokkurra landshlutasamtaka/atvinnuþróunarfélaga, sem snýr að stuðningi fyrir konur í fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni.

Hæfnihringirnir fóru af stað í lok október og stóðu yfir í 4-5 vikur. Alls tóku 25 konur þátt um land allt sem var skipt upp í 3 hópa. Námskeiðið fór fram á netinu í gegnum forritið Zoom.

Hæfnihringir eru byggðir á aðferðafræði, sem kallast aðgerðanám, en það grundvallast á því að nota raunverulegar áskoranir, verkefni og tækifæri sem grunn fyrir lærdóm. Á námskeiðinu var meðal annars farið yfir markmiðasetningu, tímastjórnun, forgangsröðun, hugarkort, markaðssetningu á netinu og svót greiningu.

Auk okkar hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, komu kollegar okkar hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Austurbrú, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Vestfjarðarstofu að verkefninu.

Vonir standa til um að geta farið af stað með nýja hópa eftir áramót.