Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra í kynnisferð á Borgundarhólmi

Hópurinn á heimleið
Hópurinn á heimleið

Dagana 25.-27. mars fór 42 manna hópur sveitarstjórnarmanna og sveitarstjóra á Norðurlandi vestra í kynnisferð til Borgundarhólms í Danmörku. Einnig fóru starfsmenn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í ferðina en ferðin var skipulögð af samtökunum.

Tilgangur heimsóknarinnar var að fræðast um þær leiðir sem sveitarfélagið hefur farið til að snúa við neikvæðri íbúaþróun. Einnig var fræðst um sameiningar sveitarfélaganna á eyjunni sem fram fóru árið 2003 sem og ferðaþjónustu og stuðning við landbúnað. Sömuleiðis var farið í fyrirtækjaheimsóknir og sótt heim repjuolíugerð og hágæða súkkulaðiframleiðsla auk mjög áhugaverðs nýsköpunarseturs.

Borgundarhólmur er eyja í Eystrasaltinu og er hluti af Danmörku. Þar búa rétt undir 40 þúsund íbúar og er eyjan um það bil helmingur af Skaga að stærð. Um nokkurt skeið hefur fólksfækkun verið viðvarandi auk þess sem samfélagið hefur verið að eldast. Á undanförnum árum hefur sveitarfélaginu tekist að stemma stigu við fólksfækkuninni m.a. með því að ráða sérstakan "innflytjendafulltrúa" sem hefur það hlutverk að laða fólk til eyjunnar, hjálpa því að verða sér úti um atvinnu og húsnæði og styðja við bakið á því fyrsta kastið eftir að þeir taka búsetu á eyjunni. Í raun má segja að þessi aðili sé einhverskonar "búsetusölumaður" sem hefur það hlutverk að selja áhugasömum þá hugmynd að flytja til eyjunnar og aðstoða það við flutningana. Vilja forsvarsmenn sveitarfélagsins meina að það hafi breytt miklu í þeirri viðleitni að snúa við neikvæðri þróun íbúafjölda.

Það vakti sömuleiðis áhuga þátttakenda í ferðinni að leiðarstef í öllum erindum og heimsóknum sem farið var í að áberandi var hve stoltir Borgundarhólmsbúar eru af eyjunni sinni. Stolt þetta vilja þeir meina að sé lykilforsenda þess að gera eyjuna að ákjósanlegum búsetukosti. Er það nokkuð sem sveitarfélög á Íslandi geta tekið til sín og leitað leiða til að auka stolt íbúa af viðkomandi svæði. Við þurfum sömuleiðis öll að líta í eigin barm hvað það varðar.

Eitt af því sem hópurinn vildi frá svör við í heimsókninni var hvað sveitarfélagið Borgundarhólmur hefur gert til að laða atvinnustarfsemi til eyjunnar. Svarið við því var einfalt, við löðum fyrirtækin ekki til okkar, við búum þau til! Áhersla er lögð á að styðja við frumkvöðla með ýmsum hætti. Meðal annars með rekstri nýsköpunarmiðstöðvarinnar Möbelfabrikken þar sem þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í fyrirtækjarekstri er veitt aðstoð við gerð viðskiptaáætlana, framkvæmd þeirra sem og til boða stendur að leigja aðstöðu undir reksturinn á hagstæðu verði. Þannig myndast hvetjandi suðupottur frumkvöðla sem hvetur til árangurs þeirra.

Það má ekki gleyma að nefna það þegar farið er í ferðir af þessum toga að í þeim gefst gott tækifæri fyrir sveitarstjórnarmenn á starfssvæðinu gott tækifæri til að kynnast og til skrafs og ráðagerða um hin ýmsu málefni sem tengjast sveitarfélögunum. Það var einkum þess vegna sem ákveðið var að fara í ferðina svo stuttu eftir sveitarstjórnarkosningar þar sem endurnýjun sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra var mikil. Góð kynni innan svæðisins auka líkur á árangursríku samstarfi til eflingar landshlutans.