Styrkir að rata inn á Norðurland vestra

Stjórn Loftslagssjóðs hefur lokið við úthlutun. Alls bárust 203 gildar umsóknir í Loftslagssjóð og voru 32 þeirra styrktar eða um 16% umsókna. Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr Loftslagssjóði en umsóknarfrestur var þann 30. janúar s.l. Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Meðal verkefna sem hlutu styrk voru verkefnin Rekaviður þar sem aðalumsækjandi er Nes listamiðstöð á Skagaströnd og Youth for Arctic Nature þar sem aðalumsækjandi er Selasetur Íslands á Hvammstanga.

Einnig var nýlega auglýst eftir styrkumsóknum á sviði bókmennta og bókmenningar vegna átaksverkefnis stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Umsóknarfrestur rann út 11. maí sl. Alls bárust 257 styrkumsóknir frá 199 aðilum, sótt var um fyrir verkefni að heildarupphæð 588 milljónir króna. Veitt voru 36 milljónum króna í styrki til 45 verkefna af ýmsum toga og fyrir allan aldur - og þau fara fram víða um land. Þar á meðal var verkefnið Átaksverkefni Skriðu bókaútgáfu; ritstörf/þýðing/útgáfa þriggja verka en umsækjandi var Skriða bókaútgáfa sem staðsett er á Hvammstanga.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu leiklistarráðs um styrki til atvinnuleikhópa í átaksverkefni í menningu og listum fyrir árið 2020. Alls bárust 190 umsóknir frá 170 atvinnuleikhópum og sviðslistamönnum og sótt var um ríflega 930 milljónir króna. Ákveðið var að veita 95 milljónum króna til 30 verkefna. Þar á meðal var verkefnið Hvammstangi International Puppetry festival sem Handbendi á Hvammstanga stendur fyrir.

Við hjá SSNV óskum styrkhöfum kærlega til hamingju með styrkina.