Stuðningur við tæknilega lausn til hljóðleiðsagnar á söfnum og setrum

Á dögunum var undirritaður samningur milli Sýndarveruleika ehf og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um stuðning við þróun stafrænnar leiðsagnar fyrir söfn og setur. Verkefnið gengur út á að búa til tæknilausn til hljóðleiðsagnar á söfnum og setrum sem notast við viðbótarveruleikatækni (Augmented reality). Notaðir verða svokallaðar QR kóðar sem komið er fyrir á ákveðnum stöðum inni í sýningarrými. Tæknilausnin sem er í þróun gerir gestum kleift á einfaldan hátt að skanna kóða með myndavél í snjallsíma.  Við skönnun opnast karakter á skjá í síma þess sem skannar og sá karakter "talar", opnar hreyfimynd eða miðlar upplýsingum með hverjum þeim hætti sem skipuleggjandi sýningarinnar vill.  Lausnin hefur verið í þróun um nokkurt skeið og er stuðningnum ætlað að auðvelda að henni verði komið á markað fyrir söfn og sýningar. Lausnin getur því þegar fram líða stundir nýst öðrum söfnum og sýningum á starfssvæðinu og um land allt. 

Verkefnið er eitt af átaksverkefnum vegna áhrifa Covid 19 á Norðurlandi vestra og stutt af Sóknaráætlun landshutans.