Sigurður Hansen Maður ársins 2019 á Norðurlandi vestra

Feykir stóð fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Gafst fólki kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum en nú bárust sex tilnefningar sem teknar voru til greina. Sigurður Hansen í Kringlumýri í Blönduhlíð hlaut flest atkvæði og ber því titilinn Maður ársins á Norðurlandi vestra. Í tilnefningu segir að Sigurður sé vel að því kominn að vera valinn maður ársins á Norðurlandi vestra. „Uppbyggingin á Kakalaskála er stórmerkilegt þrekvirki og ekki síður eitt merkasta og mesta útilistaverk landsins, til minningar um Haugsnesbardaga. Í sumar opnaði hann sýningu fjórtán alþjóðlegra listamanna sem sköpuðu margbrotin verk um hina stórkostlegu sögu Sturlunga, í Kakalaskála sem ber heitið Á söguslóð Þórðar kakala. Svo í dauða tímanum gaf hann út á haustdögum ljóðabókina Glóðir.“

Af einstökum eldmóði hefur Sigurður Hansen ásamt fjölskyldu sinni byggt upp einstakt sögusetur á Kringlumýri í Skagafirði, stað þar sem sagan drýpur af hverju strái. Listaverkið Grjótherinn var fyrsti áfanginn en Sigurður segist hafa fengið hugmynd að verkinu og byrjað á henni daginn eftir. Kakalaskálinn kom næstur þar sem hann breytti minkahúsi í sal þar sem hann hefur haldið sögustundir, tekið á móti hópum og farið í gegnum sögu svæðisins sem hann þekkir svo vel. Nýjasta viðbótin er svo sýning með einstökum listaverkum um sögu Þórðar Kakala. Sigurður segir okkur frá framkvæmdunum og hugsuninni á bak við þær.

 

Viðtal við Sigurð Hansen í hlaðvarpi SSNV má nálgast hér.