Samráðsvettvangurinn fundar í Miðgarði

Árlegur fundur Samráðsvettvangs Sóknaráætlunar Norðurlands vestra, sem í eru fulltrúar frá öllum sveitarfélögum á svæðinu, var haldinn í Miðgarði 4. okt. sl.

Á fundinum kynnti Snorri Björn Sigurðsson, Byggðastofnun, þingsályktun um Byggðaáætlun 2018-2024, sem samþykkt var á Alþingi 11. júní sl. Í áætluninni eru sett fram markmið, áherslur og mælikvarðar ríkisvaldsins fyrir þessi ár, m.a. að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

Þá var farið yfir framkvæmd Sóknaráætlunar Norðurlands vestra sl. ár, m.a. styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði  og kynnt svokölluð áhersluverkefni 2018-2019 sem snúa að fjölmörgum þáttum í ferðaþjónustu, innviðagreiningu, orku- og umhverfismálum.

Núverandi samningur við ríkisvaldið um Sóknaráætlun Norðurlands vestra rennur út í lok næsta árs, 2019. Því má gera ráð fyrir að viðræður um nýjan samning hefjist fyrri hluta næsta árs og vegna þessa fóru fulltrúar í Samráðsvettvangnum yfir núverandi samning til að greina hvað er í lagi og hvað má betur fara.