Réttir og göngur með breyttu sniði í ár

Gefnar hafa verið út leiðbeiningar vegna gangna og rétta vegna COVID-19.  Leiðbeiningarnar voru unnar í samstarfi almannavarna, sóttvarnalæknis, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Um er að ræða almennar leiðbeiningar um framkvæmd á göngum og réttum þar sem áhersla er lögð á að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum og að: „Við erum öll almannavarnir“. Allir sem taka þátt í göngum og réttum skulu hlaða niður smitrakningarappi almannavarna og vegna smitvarna er mælst til þess að áfengi verði ekki haft um hönd. Fjallaskálar eða húsnæði sem notað er við göngur eru eingöngu opin fyrir þá sem taka þátt í göngum þann tíma sem göngur standa yfir.

Almenna reglan fyrir árið 2020 er að aðeins þeir sem hafa hlutverk mæti í göngur og réttir og er það vegna 100 manna hámarksreglu. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun. Hliðvarsla verður við aðkeyrslu að réttum og þangað inn verður aðeins hleypt þeim sem þar eiga erindi.

Þann 28.08.2020 veitti Heilbrigðisráðuneytið almenna undanþágu fyrir fjöldatakmörkun fyrir réttarstörf á á grundvelli 10. gr. auglýsingar nr. 792/2020, að því tilskildu að farið sé eftir tilmælum sóttvarnarlæknis hér að neðan. Sækja þarf um slíka undanþágu til Landssamtaka sauðfjárbænda á netfangið unnsteinn@bondi.is.  Minnt er á ákvæði 8. gr. auglýsingarinnar, um þrif og sótthreinsun almenningsrýma og jafnframt á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

  • Haldinn sé listi yfir þá einstaklinga sem koma í réttina með upplýsingum sem nota má til að hafa samband við viðkomandi gerist þess þörf.
  • Upplýsingar um sóttvarnaráðstafanir og 2 metra reglu eru sýnilegar.
  • Handspritt og handþvottaaðstaða til staðar.
  • Ef matvælaþjónusta er veitt,  að matvæli séu afgreidd í innpökkuðu formi og kaffi sé hellt í bolla, ekki sjálfsafgreiðsla og að starfsfólk sem afgreiðir matvæli haldi 2 metra fjarlægð frá gestum.
  • Að talning inn og út af svæði sé skilvirk.
  • Að lögregla umdæmis  og umdæmislæknir sóttvarna séu  upplýst um þessa undanþágu.
  • Að ábyrgðarmaður réttarstarfa sendi fólk sem sýnir einhver flensueinkenni tafarlaust af vettvangi og fylgist með að starfsmenn og gestir virði 2 metra reglu.   

Landssamtök sauðfjárbænda taka á móti umsóknum um undanþágur fyrir fjöldatakmörkun fyrir réttarstörf og afgreiða þær í samráði við Embætti landlæknis og Heilbrigðisráðuneytið.  Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, Unnsteinn Snorri Snorrason, í síma 899 4043 og í netfanginu, unnsteinn@bondi.is.

Nánari leiðbeiningar má finna hér.