Norðurstrandarleið á topp 10 hjá Lonely Planet

Breski ferðavísirinn Lonely Planet hefur birt árlegan lista sinn yfir þá tíu staði í Evrópu, sem ferðaglöðum sérfræðingum ritsins þykir bestir eða áhugaverðastir hverju sinni. Í þriðja sæti á listanum má sjá, eða Norðurstrandarleið eins og það útleggst á íslensku. Til stendur að opna Norðurstrandarleið formlega 8. júní n.k.

 Í umfjöllun Lonely Planet segir meðal annars að á leiðinni sé að finna allt það besta sem Íslandi hafi að bjóða, en um fáfarnari slóðir. „Frá söguslóðum til miðstöðva hvalaskoðunar, þá býður hvert lítið þorp og bær upp á innsýn inn í lífið á toppi veraldarinnar,“ segir meðal annars í umfjölluninni. Með þróun Norðurstrandarleiðar, verður til aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilja halda sig utan alfaraleiðar og gera það með því að fara meðfram strandlengju Norðurlands. Samtals er leiðin um 900 kílómetra löng, með 21 bæ eða þorpi og fjórum eyjum sem auðveldlega er að hægt að komast út í með bát eða ferju. Norðurstrandarleið fer um alla strandlengjuna, frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri. 

Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands vestra árið 2019 sem áhersluverkefni að upphæð 4.655.074 kr., og úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra 2018 um 6.850.000 kr. og 2017 um 3.500.000 kr.