Matarboð Nýsköpunarvikunnar á Norðurlandi vestra

SSNV leitar að matarfrumkvöðlum og veitingastöðum sem hafa áhuga að taka þátt í Matarboði Nýsköpunarvikunnar.
 
Matarboðið er samansafn viðburða sem eiga sér stað samhliða Nýsköpunarvikunni dagana 26. maí - 2. júní. Viðburðunum er ætlað að para saman matarfrumkvöðla við veitingaþjónustu og skapa einstaka matarupplifun fyrir gesti. Matarboðið er vettvangur fyrir frumkvöðla og veitingastaði til að vinna saman, kynna sig, starfsemi sína og vörur ásamt því að varpa ljósi á hversu fjölbreytt og margbreytilegt íslenskt frumkvöðlastarf er orðið.
 
Hugmyndin að Matarboðinu felur í sér að bjóða veitingastað í samstarf við einn eða fleiri matarfrumkvöðla. Veitingastaðurinn kaupir vöruna af þeim og nýtir hráefnið til að útbúa spennandi rétti; parar t.d. mat við íslenskt öl eða notar íslenskt hráefni á skemmtilegan og framandi hátt. Þannig verður til nokkurs konar nýsköpunarmatseðill.
 
Hafið samband við Kolfinnu í gegnum kolfinna@ssnv.is fyrir nánari upplýsingar.