Margmenni á ráðstefnu SSNV

Margmenni var á ráðstefnu sem SSNV stóð fyrir á Hótel Laugarbakka föstudaginn 13. janúar. Efni ráðstefnunnar var af ýmsum toga og var hún opin öllum. Björn Líndal Traustason, framkvæmdastjóri SSNV, kynnti starfsemi SSNV og fór yfir helstu niðurstöður íbúakönnunar sem nýlega var lögð fyrir íbúa Norðurlands vestra.

Karl Friðriksson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framtíðarsetri Íslands tók fyrstur til máls af fyrirlesurum ráðstefnunnar. Kynnti hann skýrslu um búsetuþróun til ársins 2030 ásamt því að fara yfir þau tækifæri og þær áskoranir sem blasa við í dag.

Björg Ágústsdóttir hjá Alta ehf. kynnti svæðisskipulag og fór yfir tilgang þess og nýtingu. Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, kynnti svo samgönguáætlun sem Borgarbyggð vann og kosti þess að hafa farið út í þá vinnu.

Síðasti fyrirlesari ráðstefnunnar var Erla Björk Þorgeirsdóttir hjá Orkustofnun. Erla kynnti stöðu orkumála á Íslandi í dag og framtíðarhorfur miðað við stöðuna í dag. Einnig kynnti hún fyrirhugaðar orkuframkvæmdir og benti á möguleika fyrir sveitarfélög að kynna sér betur þá virkjunarkosti sem ef til vill eru til staðar.