Fyrsta úthlutun Matvælasjóðs

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti fyrstu úthlutun Matvælasjóðs í morgun. Alls hljóta 62 verkefni styrk en 266 umsóknir bárust. Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu um land allt.

Alls hlutu þrjú verkefni af Norðurlandi vestra styrk. Tvö þeirra voru í flokknum Bára og voru það Brjálað gimbrin með verkefnið Ærkjöt – betri nýting og Embla Dóra Björnsdóttir með verkefnið Fíflarót – allra meina bót. Í flokknum Fjársjóður hlaut Pure Natura styrk fyrir verkefnið Markaðssókn á fæðubótaefnum unnum úr hliðarafurðum í sauðfjárrækt. Nánar um úthlutunina má lesa hér.

Norðurland vestra er eitt af lykilmatvælaframleiðsluhéruðum landsins með sterkar rætur í sjávarútvegi og landbúnaði. Markmið sóknaráætluninnar 2020-2024 snýr meðal annars að því að fjölga frumkvöðlum og styðja við nýsköpun og vöruþróun í matvælageiranum.

Opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn að nýju í mars 2021. Ráðgjafar SSNV aðstoða við umsóknarskrif og mótun verkefna. Við hvetjum þá sem eru að vinna að frambærilegum verkefnum til að hafa samband. Við vekjum jafnframt athygli á viðskiptahraðlinum Hugsum Hærra sem hefst í upphafi árs og ætlað er að styðja fyrirtæki og frumkvöðla sem sækja vilja um stuðning í stærri sjóði.