Fyrirtækjasýning kvenna og ráðstefna FREE á Norðurlandi vestra

Evrópuverkefnið Efling kvenfrumkvöðla á landsbyggðinni eða Female Rural Enterprise Empowerment (FREE) efnir til lokaráðstefnu á Sauðárkróki þann 18. apríl n.k. en samhliða ráðstefnunni verður einnig kynning á kvennafyrirtækjum.

Kveikjan að Evrópuverkefninu FREE var að rannsóknir sýndu að frumkvöðlakonur á landsbyggðinni hafa oft ekki tök á því að ferðast um langan veg til að taka þátt í námskeiðum eða fundum um stofnun og rekstur fyrirtækja. Þær vilja hafa aðgang að fræðslu og gagnlegu efni í gegnum netið en auk þess eru tengslanet oft á tíðum ekki eins öflug og á þéttbýlli svæðum.

Vinnumálastofnun á Íslandi hefur leitt verkefnið en markmið þess er að efla frumkvöðlakonur á landsbyggðinni, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi,  og hvetja þær til dáða í þeirra fyrirtækjarekstri. Verkefnið er samstarfsverkefni sex aðila frá fimm löndum, en auk Vinnumálastofnunar tekur Byggðastofnun þátt ásamt aðilum frá Bretlandi, Búlgaríu, Króatíu og Litháen.

Verkefnið skiptist í þrjá þætti:

  • Fræðsluefni á netinu í námsþáttum eins og stefnumótun, útflutningi, vöruþróun, markaðssetningu, kennslu í notkun samfélagsmiðla, netsölu og fjármálum. Námið er nú þegar aðgengilegt á heimasíðu verkefnisins  http://www.ruralwomenacademy.eu/?lang=is
  • Þrjú tengslanet voru stofnuð, á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi en lögð var áhersla á að vinna með konum búsettum á þessum svæðum. Tengslanetunum er stýrt af sjálfboðaliðum, konum sem sjálfar eru í atvinnurekstri.    
  • Frumkvöðlakonum var boðið að taka þátt í jafningjafræðslu í gegnum hæfnihringi á netinu, þar sem frumkvöðlakonur hafa rætt um áskoranir og verkefni.

Lokaráðstefna á Sauðárkróki 18. apríl 2018

FREE verkefninu lýkur formlega með ráðstefnu sem haldin verður í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Ráðstefnan er opin öllum og er aðgangur ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn og verður opnað fyrir skráningu þann 15.febrúar.

Dagskrá hefst kl. 11.30 með fyrirtækjasýningu kvenna. Þá verður kynning á verkefninu og árangri en auk þess munu konur sem tóku þátt í verkefninu segja frá reynslu sinni.

Í lokin verður boðið upp á örnámskeið tengd rekstri fyrirtækja en nánari dagskrá verður auglýst síðar. SSNV sér um skipulagningu fyrirtækjasýningarinnar og þarf að skrá þátttöku fyrirtækja sem vilja vera með á fyrirtækjasýningu hjá sveinbjorg@ssnv.is fyrir 28. febrúar nk.

Um takmarkað pláss er að ræða og því nauðsynlegt að staðfesta þátttöku eins fljótt og auðið er. Vonast er til að konur sem starfrækja fyrirtæki taki vel í að kynna þau og sýni þannig kraft og framlag kvenna til atvinnureksturs á svæðinu.