Digi2Market - Verkefnafundur

Samstafsaðilar SSNV í Norðurslóðaverkefninu Digi2Market funda dagana 8.-10. október í Enniskillen á Norður-Írlandi. Efni fundarins er staða verkefna samstarfsaðilanna en hver aðili ber ábyrgð á ákveðnum hluta verkefnisins. Sveinbjörg Pétursdóttir atvinnuráðgjafi og Einar Ben stjórnarformaður Tjarnargötunnar sitja fundinn fyrir hönd SSNV.

 

Markmið verkefnisins er að styðja við fyrirtæki á dreifbýlissvæðum sem eiga undir högg að sækja. Stefnt er að því að vinna með fyrirtækjum sem sjá sér hag í því að nýta sér stafræna markaðssetningu til að auka markaðshlutdeild sína. Þátttaka í verkefninu veitir fyrirtækjum hæfni og þekkingu í að nýta sér skynjaðan veruleika og sýndarveruleika í markaðssetningu og sölu á vöru og þjónustu. Fyrirtæki gætu nýtt sér þetta til að auka sölu á núverandi markaði eða til að ná inn á nýja markaði hérlendis eða erlendis. Þá er enn fremur stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja sem byggja á líffræðilegum auðlindum svæðisins; fiski, landbúnaði, skógrækt og öðrum tengdum iðnaði.

Verkefnið fékk styrk úr Norðuráætlanasjóði (NPA) í lok árs 2018, en það er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður sem er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum samstarfslandanna. NPA svæðið samanstendur af norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Það er Údarás na Gaeltachta á Írlandi sem leiðir verkefnið.

 

Þátttakendur í verkefninu auk SSNV eru WESTBIC og ICBAN (atvinnuþróunarfélög), Udaras na Gaeltachta (landshlutasamtök), University of Ulster og Karelia University (háskólar í Norður-Írlandi og Finnlandi).

 

Það er von SSNV að þátttaka í verkefninu leiði til aukins vaxtar fyrirtækja á Norðurlandi vestra.

 

Sveinbjörg Pétursdóttir er verkefnisstjóri verkefnisins fyrir hönd SSNV og veitir allar frekari upplýsingar.