Aukin áhersla á nýsköpun á Norðurlandi vestra

Kolfinna Kristínardóttir hefur verið ráðin til SSNV sem atvinnuráðgjafi með áherslu á nýsköpun. Kolfinna hefur MA próf í hagnýtri menningarmiðlun og Bs próf í ferðamálafræði. Hún setti upp Matarhátíð í Skagafirði í tengslum við meistaraverkefni sitt þar sem áhersla var lögð á nýsköpun í matarmenningu og kynningu á skagfirsku hráefni og framleiðslu. Kolfinna hefur stjórnenda- og rekstrarreynslu úr störfum sínum hjá Wow Air auk þess sem hún hefur sinnt stjórnunarstörfum í ferðaþjónustu. Meginstarfsstöð Kolfinnu verður á Sauðárkróki en hún mun líkt og aðrir ráðgjafar samtakanna vinna með aðilum á Norðurlandi vestra öllu.

 

Með ráðningu atvinnuráðgjafa með nýsköpun með sérsvið er verið að auka áherslu á þennan mikilvæga þátt til aukinnar verðmætasköpunar í landshlutanum. Er það í takt við áherslur í Sóknaráætlun Norðurlands vestra fyrir árin 2020-2024. Í áætluninni er meðal annars lögð áhersla á fullvinnslu afurða sem framleiddar eru á svæðinu, fjölgun vaxtarbrodda sem og styrkingu grunnstoða í atvinnulífinu, svo sem í ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi.

 

Kolfinna hefur störf þann 1. september 2020. Við bjóðum hana velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins.