Barnamenningarsjóður úthlutun 2020

Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur samþykkt tillögu stjórnar Barnamenningarsjóðs Íslands um styrkveitingar fyrir árið 2020. Umsóknarfrestur rann út 1. apríl sl. og bárust 112 umsóknir. Sótt var um tæplega fimmfalda þá upphæð sem til skipta var. Samþykkt var að veita 42 styrki að heildarupphæð 92 milljónir kr. Þriggja manna valnefnd fjallaði um umsóknirnar. Tilkynnt var um úthlutun við athöfn í Hörpu á degi barnsins, sunnudaginn 24. maí 2020.

 

Norðurland vestra á hlutdeild í tveim umsóknum: 

 

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Hólmavíkur og samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra – kr. 4.600.000.- Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Markmið þess er að efla íslenska leikritun, styrkja leiklistariðkun ungs fólks og auka áhuga þess á leiklist, auk þess sem það styrkir fagþekkingu á leiklist í skólum og hjá áhugaleikfélögum. Verkefnið gengur nú gegnum þróunarferli sem ætlað er að styrkja grundvöll þess til frambúðar og koma samstarfinu við landshlutana í fastari skorður.

 

Handbendi Brúðuleikhús ehf – kr. 2.000.000.- HIP – Alþjóðleg brúðulistahátíð á Hvammstanga; Hvammstangi International Puppetry Festival. Hátíðin er ný hátíð, sem ætlað er það hlutverk að auka fjölbreytni menningar í Húnaþingi vestra og gefa börnum á svæðinu tækifæri til að taka þátt í vönduðum listviðburðum á hátíð þar sem íslenskir og alþjóðlegir brúðulistamenn bjóða upp á brúðusýningar, vinnustofur og fyrirlestra. Handbendi hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði 2019 fyrir sumarnámskeiði í leiklist.

 

Við óskum styrkhöfum til hamingju með styrkina og góðs gengis í verkefnum sínum.