Alþjóðleg brúðulistahátíð og Sölubíll smáframleiðanda valin framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra á árinu 2020

Greta Clough tekur við viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á Norðurlandi vestra ári…
Greta Clough tekur við viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á Norðurlandi vestra árið 2020 fyrir alþjóðlegu brúðulistahátíðina Hvammstangi International Puppetry Festival sem haldin var sl. haust.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV)  velja árlega framúrskarandi verkefni á sviði menningarmála annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar. Í ár hljóta verkefnin Hvammstangi International Puppetry festival og Sölubíll smáframleiðenda á Norðurlandi vestra viðurkenningarnar.

Kallað var eftir tilnefningum til verkefnanna meðal íbúa í landshlutanum og bárust fjölmargar. Stjórn SSNV ákvað á fundi sínum þann 12. janúar 2021 að veita eftirfarandi verkefnum viðurkenningar:

Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar: Vörusmiðja Biopol fyrir Sölubíl smáframleiðenda á Norðurlandi vestra.  Verkefnið er allt í senn, sameiningarafl fyrir smáframleiðendur, aukin þjónusta við viðskiptavini þeirra og nýstárleg og góð lausn á markaðssetningu og sölu afurða beint frá býli. Verkefnið styður við smáframleiðendur á því sviði þar sem þekkingu þeirra margra skortir og er í takt við markmið Sóknaráætlunar landshlutans um aukið virði afurða sem og sölu vara beint frá býli. Sölubíllinn hefur vakið jákvæða og verðskuldaða athygli á svæðinu sem er eitt mesta matvælahérað landsins og er mikilvægur þáttur í áframhaldandi atvinnuþróun og uppbyggingu þess.

Á sviði menningarmála: Handbendi brúðuleikhús fyrir brúðulistahátíðina Hvammstangi International Puppetry Festival. Frá stofnun hefur brúðuleikhúsið Handbendi vakið jákvæða athygli á landshlutanum fyrir metnaðarfull og vönduð menningarverkefni sem farið hafa víða, innanlands sem utan. Brúðulistahátíðin sem haldin var í fyrsta skipti í október 2020 var þar engin undantekning. Að halda alþjóðlega brúðulistahátíð á Norðurlandi vestra hefði alltaf verið ærið verkefni en að gera það á glæstan hátt í heimsfaraldri er listrænt og framkvæmdarlegt afrek. Verkefnið er listamönnum í landshlutanum hvatning til að láta ekkert stoppa sig í að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og er brúðuleikhúsið Handbendi mikilvægur þáttur í menningarlífi landshlutans.

Viðrkenningarnar voru afhentar fulltrúum þessara verkefna á dögunum. F.h. hönd brúðulistahátíðarinnar tók Greta Clough listrænn stjórnandi Handbendi brúðuleikhúss við viðurkenningunni en hún er stofnandi leikhússins sem staðsett er á Hvammstanga. Nánari upplýsingar hér: https://www.handbendi.com/ og um brúðulistahátíðina hér: https://www.thehipfest.com/index.html

 

Þórhildur M. Jónsdóttir verkefnisstjóri Vörusmiðju BioPol og Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir starfsmaður sölubílsins taka við viðurkenningu fyrir framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra árið 2020 á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar. Í sölubílnum eru framleiðsluvörur smáframleiðenda á Norðurlandi vestra seldar milliliðalaust.F.h. Sölubíls smáframleiðenda tóku Þórhildur M. Jónsdóttir og Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir við viðurkenningunni. Þórhildur er verkefnisstjóri Vörusmiðju Biopol sem er vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur. Abba er starfsmaður Sölubílsins og hefur farið um Norðurland vestra og selt framleiðslu smáframleiðenda í honum. Nánari upplýsingar um Vörusmiðjuna og Sölubílinn er að finna hér: https://vorusmidja.is/

 

 

 

 

 

 

Þórhildur M. Jónsdóttir verkefnisstjóri Vörusmiðju BioPol og Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir
starfsmaður sölubílsins taka við viðurkenningu fyrir framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra
árið 2020 á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar. Í sölubílnum eru framleiðsluvörur
smáframleiðenda á Norðurlandi vestra seldar milliliðalaust.

 

Nánari upplýsingar veitir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, s 862 1340